Thursday, February 15, 2007

Fréttir frá Finnlandi og Ungverjalandi


Þær fréttir hafa borist frá Finnlandi að þeir geti ekki skilað tillögum sínum um merki (logó) verkefnisins Tales of Europe vegna þess að skóli þeirra á ekki skanna og það kú heldur ekki að vera í fjárhagsáætlun þessa skólaárs að kaupa skanna!

Þetta kom okkur hér á Íslandi sjálfsagt mjög á óvart því að varla er til skóli hér á landi þar sem ekki er til skanni. Slíkt tæki er einnig í mýmörgum heimilum.

Hingað til höfum við hugsað að Finnland sé mjög tölvuvætt, enda heimaland NOKIA, en í þessu tilliti skjátlaðist okkur. Reyndar kom það okkur mjög á óvart að í skólanum í Tammisaari voru örfáar tölvur en aftur á móti var sjónvarp og vídeótæki í öllum kennslustofum.

Ég sendi Finnunum tölvuskeyti og bað um að þeir taki digitalmynd af teikningunum og sendi síðan myndina gegnum netið. En hugsanlega á skólinn heldur enga digitalmyndavél, en væntanlega getur einhver kennari lánað sína. Við bíðum því spennt eftir myndunum frá þeim. En við Magnea, Ingibjörg og undirrituð, við sáum tillögurnar í nóvember, þegar við sóttum skólann í Tammisaari heim. Margar myndirnar voru mjög flottar .
Það verður einnig spennandi að sjá hvað kemur frá Ungverjalandi.

Frá Ungverjum er annars það að segja að 6. bekkur þeirra og umsjónarkennarinn, sem heitir Eva, hafi mikinn áhuga á að tengjast vinatengslum við 6. bekk okkar hér í Digranesskóla. Eva sendi mér tölvupóst um þetta mál, sem ég svo áframsendi til þeirra Guðnýjar Katrínar og Guðrúnar Hvannar. Nú er bara að 6. bekkurinn skrifi eitt fallegt sendibréf til þeirra í Ungverjalandi.
Héðan úr "höfuðstöðvum" Comeniusar er það að frétta nú er kominn tími til að endurnýja umsóknina um Comeniusstyrkinn (fyrir skólaárin 2007-08 og 2008-09). Þetta er heljarmikill bunki af blöðum sem við þurfum að fylla út og allt saman á ensku. Mjög ítarlega verður að tíunda hvað gert verður og hvers konar end products við ætlum að hafa og hvernig við ætlum að meta árangurinn af þessu starfi. (Um allt þetta mun ég ræða seinna hér)
Við sleppum reyndar auðveldara en hinir samstarfsskólarnir því að þeir verða skila umsóknunum einnig á sínu tungumáli og þýða því úr enskunni. Hér heima er aftur á móti gengið út frá því að embættismenn sem taka á móti umsóknunum geti lesið enskuna og því þurfum við ekki að skila umsóknunum inn á tveimur tungumálum.

Kveðja
Marjatta

Thursday, February 8, 2007

Sigurvegarinn í logókeppni Ítala





Fréttin mín um blekfiskinn sem sigurvegari í logókeppni Ítalanna var á misskilningi byggt. Því miður, hugsaði ég, því að mér fannst blekfiskurinn afar skemmtilegur. Hér fyrir ofan er mynd af þeirri tillögu sem vann hjá nemendunum í Cordenons, stjarna sem snýst og fánarnir á örmunum. Hún er afar vel unnin og er frágangurinn snyrtilegur. Ykkur lesendum til skemmtunar og fróðleiks læt ég einnig fylgja myndir af þeim tillögum sem voru í atkvæðatölunni næst á eftir sigurvegarann.
Nú eigum við eftir að fá myndir frá Finnunum og Ungverjum en vegna þess hve Portúgalar komu seint inn í verkefni er ekki viss hvort þeir hafi tök á að senda inn tillögur.

Kveðja
Marjatta, verkefnisstjóri Tales of Europe

Monday, February 5, 2007

Fréttir frá Ítalíu - "Comeniusarkarfan á ferð"

Sabina, tengill skólans í Cordenons sendi okkur mynd af vinningstillögunni í logókeppninni hjá þeim. Merkið var virkilega skemmtileg útfærsla af blekfiski með fimm lappir og var hver löpp í litum eins samstarfslandanna. Því miður tókst mér ekki að hlaða myndina upp og geri nýja tilraun seinna í dag.

Sabina telur einnig upp fullt af skemmtilegum verkefnum sem krakkarnir í Cordenons hafa verið að vinna að. Þeir hafa bæði verið að taka upp tónlist og einnig unnið að þjóðsögum - búið til nýja og myndskreytt og svo framvegis. En þeir hafa kvartað að hafa ekki fengið neitt frá hinum skólunum. Við verðum því að láta hendur standa fram úr ermunum og senda frá okkur pakka til krakkanna á Ítalíu sem fyrst!

Frá okkur er það að frétta að "Comeniuskarfan", það er efnið sem safnast hefur hingað til er nú á hringferð um skólann. Karfan fór fyrst í 6.G. og á svo að fara í alla bekkina svo að þið getið kynnst efninu, hlustað á tónlistina, sungið og einnig skoðað bækurnar. Engilega spyrjið kennarann ykkar spurninga, ef þið viljið vita meira.

Kveðja
Marjatta

Friday, February 2, 2007

Póstur frá Ungverjalandi


Tamás Bencze, tengill Deák Diák skólans í Búdapest sendi tölvupóst og var miður sín vegna þess að tölvan hans hafði verið rangt stillt og allur pósturinn sem hann hafði sent okkur eftir jól hafði glatast á leiðinni! Þetta uppgötvaðist bara nýlega og eru nú tengingar komnar í lag.

Támas biður að heilsa öllum nemendum Digranesskóla og segir að þeir í Deák Diák eru að setja upp leikrit sem byggist ungverskri þjóðsögu. Þeir ætla að búa til vídeómynd af því og senda til allra samstarfsskólanna. Svo er annar bekkur að æfa ungversk sönglög sem þeir ætla að taka upp og senda gegnum tölvuna sem hljóðskjá. Við getum þá brennt lögin á disk.

Þessum pistli fylgir mynd sem tekin var einn laugardagsmorgun s.l. haust. Kennarar yngsta stigs mættu þá til að vinna verkefni eftir s.k. Söguaðferðinni eða Storyline method til að vera betur undirbúnir, en þessi aðferð er notuð í kennslu og tengist því óbeint Comeniusi.

Kveðja
Marjatta

Thursday, February 1, 2007

Áfram unnið að verkefnum



Nú þegar prófatímabilið er búið hafa bekkirnir hafist handa að vinna að þeim verkefnum sem þeir ætla að leggja fram sem hluti af Comeniusarverkefninu Tales of Europe. Öll eru þessi verkefni þannig að þau falla inn í gildandi námskrá bekkjanna.

Bekkirnir þeirra Ingibjargar og Þórlaugar (2.I. og 2.Þ.) kynna sér álfana og allt sem tengist þeim, læra ný orð, teikna myndir um álfana og svo framvegis.

Bekkurinn hennar Gerðar (1.G.) er að kynna sér skólann okkar.

Fjórði bekkurinn er að hefjast handa til að kynna sér bæjarfélagið sitt, Kópavoginn.

Fimmti bekkurinn er þegar byrjaður að læra um landið og nota þeir bókina Landshorna á milli sem aðalbók en viðra sér heimildir víðar. Nemendurnir vinna í hópum og velur hver hópur sér einn fjórðung til frekari skoðunar.

Sjöttu bekkirnir eru að kynna sér sögu landsins. Guðjýnar bekkur er önnum kafinn í að læra um Snorra Sturluson en þeir hafa einnig safnað fróðleik um jólasveinana. Ætlunin er að búa til myndabók um Snorra með stuttan texta sem verður svo þýddur á tungumál samstarfskólanna (ítölsku, finnsku, ungversku og portugölsku).

Bekkur Guðrúnar Hvannar er að vinna að þjóðsögum og ætla þeir að vera með leikgerð af einni sagnanna á vorsýningu skólans.

Aðeins tveir nemendur sérdeildar eru með í Tales of Europe og fögnum við þáttöku þeirra. Þessari pistli fylgir mynd sem annar þeirra teiknaði við söguna um selshaminn (Mér er um og ó, sjö á ég börn....) en hann er að vinna að myndabók um þessa vel þekkta þjóðsögu og fylgir einnig þeirri bók stuttur myndatexti á mismunandi tungumálum.

Marg fleira mætti tína til en þetta eru aðeins sýnishorn af því sem fer fram í skólanum.

Fyrir hönd Comeniusarteymis Digranesskóla
Marjatta Ísberg verkefnisstjóri